Lög sFK
Lög starfsmannafélags kópavogs
1. grein
Félagið heitir Starfsmannafélag Kópavogs skammstafað SfK. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.
2. grein
Félagið er stéttarfélag og er tilgangur þess:
- að fara með fyrirsvar félagsmanna við gerð kjarasamninga og aðrar ákvarðanir fyrir hönd félagsmanna samkvæmt lögum og reglugerðum er þá varða.
- að gæta hagsmuna félagsmanna í öllu því sem varðar laun, önnur kjör og starfsréttindi hvers konar.
- að koma opinberlega fram fyrir hönd félagsmanna.
- að vinna að samstöðu félagsmanna.
- að stuðla að auknu samstarfi opinberra starfsmanna og samvinnu samtaka launafólks.
3. grein
Félagið er stéttafélag. Félagið skiptist í tvo hluta. A-hluta og B-hluta.
Í A-hluta eru allir starfsmenn Kópavogsbæjar sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr.94/1986 taka til og taka laun samkvæmt kjarasamningi bæjarins og SfK. Einnig þeir ríkisstarfsmenn sem gegna störfum sem áður voru á vegum Kópavogsbæjar og taka laun samkvæmt kjarasamningi ríkisins og SfK.
Í B-hluta eru einstaklingar sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem starfa í almanna þágu og eru að meirihluta í eigu bæjarins eða hafa verið í eigu bæjarins en eru nú rekin af öðrum aðilum. Um kjarasamninga B-hluta félagsins gildi lög nr. 80/1938.
Þá geta átt aðild að félaginu starfsmenn þess, sem ekki eiga rétt til aðildar að A- eða B-hluta sem og félagsmenn sem ráðast til starfa hjá BSRB.
4. grein
Láti félagsmaður af störfum í þjónustu bæjarins missir hann þegar félagsréttindi. Verði félagsmenn atvinnulausir skulu þeir eiga kost á að halda félagsaðild og þeim réttindum, sem er á færi félagsins að veita, á meðan þeir eru atvinnulausir og sannanlega ekki með aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiði félagsgjald, en heimilt er að fella það niður.
5. grein
Hefji félagsmaður störf að nýju samkvæmt 3. grein haldast áunnin réttindi. Réttindi til sjóða og annarra félagshagsmuna falla niður yfir burtverutímabilið.
6. grein
Félagsmaður, sem lætur af starfi á aldursmörkum eða vegna veikinda og hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta, heldur öllum félagsréttindum, en skal vera gjaldfrjáls.
7. grein
Lífeyrisþegum er heimilt að stofna deild innan félagsins til að fjalla um sín sérmál, er varða réttindi þeirra og hagsmuni sem slíkra. Slík deild skal gerast aðili að sambandi lífeyrisþega innan BSRB.
8. grein
Enginn fullgildur félagsmaður getur neitað að taka við kosningu til starfa í þágu félagsins nema auðsæ forföll hamli. Þó geta menn neitað kosningu hafi þeir gegnt störfum í eitt kjörtímabil.
9. grein
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara. Stjórn skal kosin á aðalfundi samkvæmt eftirfarandi reglum:
- Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn.
- Fjórir meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi tveir úr stjórninni á víxl.
- Tveir varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi annar úr stjórn á víxl.
- Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga.
- Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér varaformann, ritara og gjaldkera.
- Formaður kallar saman stjórnarfundi og stjórnar þeim og varaformaður að honum forfölluðum.
- Ritari skal halda gerðabók fyrir alla fundi stjórnar. Fundagerðir stjórnar félagsins skulu vera aðgengilegar á heimasíðu þess.
- Gjaldkeri varðveitir alla fjármuni félagsins og sérsjóða þess, nema annað sé ákveðið í skipulagsskrá þeirra. Allt handbært fé skal geymt í banka eða á annan hátt sem stjórn ákveður. Gjaldkeri greiðir alla reikninga og leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi.
10. grein
Fastanefndir í félaginu eru:
1. Trúnaðarmannaráð sem skipað er öllum trúnaðarmönnum félagsins. Það er tengiliður stjórnar og félagsmanna og stjórninni til ráðuneytis í mikilsverðum málum.
2. Samstarfsnefnd skipuð tveimur félagsmönnum og tveimur til vara. Skal annar aðalmaður vera formaður félagsins og hinir skipaðir af stjórn.
3. Samninganefnd skipuð stjórn félagsins. Hún skal undirbúa samningagerðir og annast samninga við viðsemjendur. Heimilt er að stofna til samstarfs eða samvinnu við önnur stéttarfélög.
4. Orlofsnefnd skipuð fjórum félagsmönnum, kosnum á aðalfundi, ásamt starfsmanni félagsins.
5. Stjórn verkfallssjóðs er skipuð stjórn félagsins.
11. grein
Stjórn félagsins boðar til almenns félagsfundar, þegar þörf krefur að hennar mati, eða ef minnst 50 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.
12. grein
Fundi skal boða með tilkynningu á hverjum vinnustað með minnst þriggja daga fyrirvara og eigi síðar en 10 dögum eftir að stjórn félagsins berst krafa um fund. Geta skal fundarefnis.
13. grein
Aðalfund skal halda fyrir 1. maí ár hvert. Hann skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti á hverjum vinnustað. Í fundarboði skal tilgreina aðalfundarefni og tillögur um lagabreytingar.
14. grein
Fundir eru lögmætir, ef löglega er til þeirra boðað.
15. grein
Verkefni aðalfundar eru:
- Skýrslur fráfarandi stjórnar, fastanefnda og annarra starfsmanna félagsins, eftir því sem þurfa þykir.
- Lagðir fram endurskoðaðir reikningar sjóða félagsins fyrir undangengið ár og gerð grein fyrir þeim.
- Tillögur um lagabreytingar. Slíkar tillögur skulu hafa borist stjórninni minnst einum mánuði fyrir aðalfund og skulu þær kynntar með fundarboði.
- Ákvarðanir teknar um:
Árstillag sem hundraðshluta fastra launa.
Framlag í verkfallssjóð.
Ávöxtun sjóða félagsins. - Kosningar. Kjósa skal stjórn, skoðunarmenn reikninga, orlofsnefnd, fulltrúa á þing BSRB þau ár sem Bandalagsþing eru haldin, aðra trúnaðarmenn og fulltrúa félagsins.
16. grein
Lögum félagsins er aðeins hægt að breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 greiddra atkvæða fundarmanna.
17. grein
Ákvæði vegna laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stjórn félagsins tekur ákvarðanir, í samráði við samninganefnd og trúnaðarmannaráð, eftir því sem við á hverju sinni, um allsherjaratkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar og um afboðun eða frestun verkfalls eftir undirritun kjarasamnings.
18. grein
Tilvist félagsins telst lokið ef starfsemi þess hefur legið niðri samfellt í tvö ár.
19. grein
Tillögu um að slíta félaginu má einungis afgreiða á aðalfundi. Skal það tilkynnt sérstaklega í boðun fundarins og hlýtur því aðeins samþykki að 3/4 fundarmanna greiði tillögunni atkvæði.
20. grein
Við félagsslit skal taka ákvörðun á aðalfundi um hvert ráðstafa skuli öllum eignum félagsins.
21. grein
Þessi lög SfK eru samþykkt með breytingum á aðalfundi félagsins þann 21. maí 2014 og taka þegar gildi. Með lögum þessum falla úr gildi eldri lög félagsins.
Ákvæði til bráðabirgða.
Kosning varamanna. Til að ná fram því fram að árlega sé kosið um einn varamann, skal í fyrstu
kosningum eftir gildistöku laganna kjósa annan varamanninn til eins árs og hinn til tveggja ára.